Ferill 824. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1567  —  824. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um hatursorðræðu og kynþáttahatur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa ráðuneytið og stofnanir þess boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo er, hvernig hefur henni verið háttað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra sjá til þess að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess fái slíka fræðslu?

    Fræðsla um hatursorðræðu og kynþáttahatur fyrir starfsfólk í mennta- og barnamálaráðuneyti og undirstofnanir þess hefur ekki farið fram með heildstæðum hætti hingað til en fræðsla um málefnið er fyrirhuguð síðar á árinu 2024. Fjölbreytt fræðsla hefur þó verið í boði hjá ráðuneytinu og flestum undirstofnunum þess um hatursorðræðu, kynþáttahatur, jafnrétti, mannréttindi og önnur tengd málefni og mun áfram standa til boða, hvort sem slík fræðsla hefur áður verið veitt eða ekki. Vert er að taka fram að í ráðuneytinu og mörgum undirstofnunum þess starfar fólk sem vinnur að verkefnum tengdum þessu málefni og hefur sótt fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur. Ráðherra mun áfram beita sér fyrir fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur í ráðuneytinu og stofnunum þess og hvetja til þess að allar stofnanir sinni slíkri fræðslu með reglubundnum hætti og eftir atvikum í samráði við ráðuneytið.
    Á 153. löggjafarþingi (795. mál) lagði forsætisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026. Tillagan var unnin í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti, þar á meðal mennta- og barnamálaráðuneyti. Þó að tillagan hafi ekki náð fram að ganga voru eftirfarandi aðgerðir á ábyrgð ráðuneytisins sem hafist var handa við að innleiða:
          1.      Fræðsla sem vinnur gegn hatursorðræðu fyrir skólastjórnendur, kennara, leiðbeinendur og þjálfara í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
          2.      Fræðsla sem vinnur gegn hatursorðræðu fyrir börn og ungmenni.
          3.      Aukin upplýsingamiðlun og samráð við börn og ungmenni um hatursorðræðu.
    Fólst vinnan m.a. í ráðstefnu sem ráðuneytið stóð fyrir í samstarfi við forsætisráðuneytið í nóvember 2023 um hvernig réttindamiðað og lýðræðislegt skólaumhverfi geti unnið gegn hatursorðræðu. Ráðstefnan var hluti af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og var markmið hennar að leiða saman fagfólk og rýna verkfæri sem nýst hafa í baráttunni gegn hatursorðræðu og fordómum innan skólaumhverfisins. Á ráðstefnunni var m.a. horft til reynslu Norðurlandanna og þá einkum til tengslanets Norrænu ráðherranefndarinnar um lýðræði, inngildingu og samheldni, DIS (demokrati, inklusion og sammenhallning), sem mennta- og barnamálaráðuneytið er aðili að. Meðal efnis sem ráðstefnan tók á voru áskoranir og tækifæri sem felast í tjáningarfrelsi en auk þess voru skoðuð úrræði til að taka á fordómum, öfgahyggju og hatursorðræðu í kennslustofum og aðferðir til að efla lýðræði og gagnrýna hugsun og stuðla að inngildingu. Samfara undirbúningi ráðstefnunnar hóf ráðuneytið samstarf við Menntamálastofnun (nú Miðstöð menntunar og skólaþjónustu) um útgáfu heildstæðs fræðsluefnis fyrir skólasamfélagið. Útgáfan inniheldur fræðsluefni fyrir kennara í grunn- og framhaldsskólum, kennsluleiðbeiningar og verkefni um takmörk tjáningarfrelsis, fordóma og hatursorðræðu. Unnið er að því að aðlaga námsefnið að íslensku skólaumhverfi og í framhaldinu verður það kynnt sérstaklega kennurum og starfsfólki skóla- og frístundastarfs og boðið upp á fræðslu í notkun námsefnisins. Stefnt er að því að efnið verði tilbúið til notkunar við upphaf skólastarfs í haust. Útgáfan byggir á efni sem nýtt hefur verið á Norðurlöndunum við góðan orðstír. Framangreint verkefni er liður í vinnu ráðuneytisins við að koma til móts við fyrstu tvær áðurnefndar aðgerðir.
    Mennta- og barnamálaráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá stofnunum sínum um efni fyrirspurnarinnar. Stofnanir ráðuneytisins eru 30. Það eru Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (áður Menntamálastofnun), Barna- og fjölskyldustofa, Ráðgjafar- og greiningarstöð og 27 framhaldsskólar.
    Eftirfarandi eru upplýsingar um hvernig fræðslu stofnana er háttað.
    Menntamálastofnun, nú Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, stóð í sinni tíð fyrir formlegri fræðslu um hatursorðræðu fyrir starfsfólk en stofnunin hefur boðið starfsfólki upp á almenna fræðslu um mismunun og fjölþætta mismunun og fræðslu um jafnréttislöggjöfina. Líkt og áður kom fram vinnur Miðstöð menntunar og skólaþjónustu að þýðingu og aðlögun námsefnis um hatursorðræðu og fordóma fyrir tilstuðlan mennta- og barnamálaráðuneytis. Nákvæm útfærsla á kynningu og innleiðingu námsefnisins liggur ekki fyrir en m.a. er verið að skoða kynningarfundi, umræðufundi eða námskeið fyrir skólasamfélagið. Þá áréttar stofnunin að jafnrétti gengur þvert á allar faggreinar í námsefni stofnunarinnar sem nær m.a. utan um málefni tengd fordómum og hatursorðræðu.
    Barna- og fjölskyldustofa hefur boðið upp á fyrirlestra sem tengjast þessum málefnum fyrir starfsfólk. Á þessu ári eru tveir fyrirlestrar fyrirhugaðir sem koma inn á fordóma og hatursorðræðu, sá fyrri um málefni barna á flótta og sá síðari um fjölmenningu, inngildingu og fordóma. Einnig verður boðið upp á svokallaða EKKO-kynningu fyrir stjórnendur.
    Ráðgjafar- og greiningarstöð hefur ekki boðið formlega upp á fræðslu tengda málefninu.
    Svör bárust frá öllum framhaldsskólum. Boðið hefur verið upp á formlega fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur í 15 skólum, í sex skólum hefur engin formleg fræðsla farið fram og í sex skólum hefur verið boðið upp á talsverða fræðslu en ef til vill ekki með fullnægjandi hætti. Í þeim tilvikum svöruðu framhaldsskólar bæði játandi og neitandi. Fjölbreytt fræðsla hefur verið í boði í þeim skólum sem svöruðu játandi og má þar nefna fræðslu um hatursorðræðu, kynþáttafordóma, minnihlutahópa og um fjölbreytileika hins mannlega samfélags. Fræðslan hefur m.a. verið frá einstaklingum, starfsfólki og nemendum, félagasamtökum og stofnunum ríkisins.
    Í eftirfarandi töflu eru svör skólanna sundurliðuð í samræmi við fyrirspurnina. Spurt var hvort boðið hafi verið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo væri, hvernig henni hafi verið háttað.

Skólar Svar Hvernig var fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur háttað?
Borgarholtsskóli Starfsfólk hefur fengið fræðslu um hatursorðræðu og minnihlutahópa með því að fá heimsóknir á starfsdögum. Í ágúst 2023 var fjallað um fjölbreytileika hins mannlega samfélags. Fulltrúi frá Samtökunum '78 hefur komið og haldið fyrirlestur fyrir starfsfólk.
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti Chanel Björk Sturludóttir og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad héldu fyrirlestur fyrir nemendur og kennara á forvarnadegi 8. febrúar 2022. um fordóma. Tótla Sæmundsdóttir hélt fyrirlestur undir heitinu Hinsegin 101 á starfsmannafundi 16. ágúst 2022. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir var með fyrirlestur á sal fyrir nemendur og kennara um stafrænt ofbeldi á forvarnadegi 26. september 2023.
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hélt fyrirlestur um stafrænt ofbeldi á netinu. Fulltrúi frá Samtökunum '78 hefur komið og haldið fyrirlestur fyrir starfsfólk skólans.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla           Já/Nei Fyrir um tveimur árum flutti Anh Dao Katrín Tran fræðsluerindi á starfsmannafundi um hatursorðræðu tengda erlendum nemendum. Á sama tíma var haldið fræðsluerindi um kynvitund og hatursorðræðu tengda henni. Fyrirhugað er að fá erindi um málefnið í upphafi haustannar 2024.
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra Nei Ekki hefur verið boðið upp á formlega fræðslu um málefnið.
Fjölbrautaskóli Snæfellinga Nei Ekki hefur verið boðið upp á formlega fræðslu um málefnið.
Fjölbrautaskóli Suðurlands Já/Nei Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi og talskona Mannflórunnar, var með fræðslu á haustönn 2023 um fjölmenningu og fordóma. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir kom á opna daga í mars 2024 og talaði við nemendur og kennara um hatursorðræðu og birtingarmyndir stafræns ofbeldis. Jafnréttisfulltrúi og lífsleiknikennarar halda uppi fræðslu fyrir nemendur um þessi mál og námsráðgjafar eru meðvitaðir um málefnið. Hvorki hefur verið bein fræðsla um hatursorðræðu meðal starfsfólks almennt né hefur kynþáttahatur verið rætt sérstaklega.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja Já/Nei Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hélt erindi um stafrænt ofbeldi, bæði fyrir starfsfólk og nemendur. Einnig var starfsfólk hvatt til að skrá sig á ráðstefnuna Lýðræðislegt skólaumhverfi sem ráðuneytið stóð fyrir í nóvember 2023.
Fjölbrautaskóli Vesturlands Já/Nei Þórdís Elva Þorvaldsdóttir talaði við nemendur og kennara um hatursorðræðu og birtingarmyndir stafræns ofbeldis í febrúar 2024. Alexander Aron Guðjónsson, frá Hinsegin Vest, kom í heimsókn og ræddi við nemendur um fordóma og hatursorðræðu. Jafnréttisfulltrúi og lífsleiknikennarar halda uppi fræðslu fyrir nemendur um þessi mál og námsráðgjafar eru meðvitaðir um málefnið. Almennt hefur starfsfólk ekki fengið fræðslu né hefur kynþáttahatur verið rætt sérstaklega.
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði     

         

Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi og talskona Mannflórunnar, hélt erindi á árshátíðardegi í mars 2023 og hlýddu bæði nemendur og starfsmenn á fræðslu um fjölmenningu og fordóma. Þá sátu bæði nemendur og starfsfólk erindi frá Antirasistunum á jafnréttisdegi skólans í apríl 2023. Í skólanum er jafnréttisáætlun, jafnréttisnefnd, jafnréttis- og hagsmunaráð nemenda og almennt er starfsfólk mjög meðvitað um málefnið. Þar af leiðandi hefur þessi fræðsla þótt duga.
Framhaldsskólinn á Húsavík           Nei Ekki hefur verið bein fræðsla um hatursorðræðu og kynþáttahatur fyrir starfsfólk en það er samt upplýst og meðvitað um þessa kima og umræða tekin á óformlegum fundum í skólanum.
Framhaldsskólinn á Laugum      Já/Nei Ekki hefur verið boðið upp á fræðslu um kynþáttahatur en eitthvað hefur verið um fyrirlestra fyrir nemendur um hatursorðræðu sem starfsfólk hefur haft kost á að mæta á.
Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu Já/Nei Til boða hefur staðið fjölbreytt fræðsla sem lýtur að samskiptum. Á árinu 2023 var Neyðarlínan með fræðslu fyrir bæði kennara og nemendur um ofbeldi í flestum sínum myndum. Á árinu 2024 var ELSA á Íslandi með mannréttindafræðslu, bæði fyrir kennara og nemendur, og Fokk Me – Fokk you var með fræðslu fyrir báða hópa. Í fjölbreytileikaviku var fræðsla frá Samtökunum '78. Ekki hefur verið bein fræðsla um kynþáttahatur.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ      Starfsfólk hefur tvisvar sinnum fengið fræðslu frá Samtökunum '78 um trans einstaklinga og kynseginleika. Auk þess hafa þær Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir og Sólborg Guðbrandsdóttir komið á undanförnum árum með fræðslu fyrir nemendur og starfsfólk um hatursorðræðu og ofbeldi. Kennarar og nemendur fóru saman á sýninguna Góðan daginn, faggi.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum Allt starfsfólk hefur fengið fræðslu í formi vinnustofu og hafa margir tekið námskeið hjá BOFS, Barna- og fjölskyldustofu.
Kvennaskólinn í Reykjavík           Í október 2023 var Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78, með erindi fyrir starfsfólk um bakslagið í hinsegin baráttunni. Á skólaárinu 2021–2022 voru Chanel Björk Sturludóttur og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad með erindi fyrir kennara um rasisma og öráreiti í íslensku samfélagi, birtingarmynd þess í skólakerfinu og hvernig kennarar geti brugðist við (samtal um hvítleika, menningarfordóma og skólakerfið). Nemendur í Stoltinu, hinsegin félagi skólans, voru með kynningu á kennarafundi 2022 þar sem þau sögðu frá könnun sem þau höfðu lagt fyrir innan skólans og hvernig hinsegin nemendur upplifa veru sína þar. Á húsþingi á vorönn 2022 var jafnréttisfulltrúi skólans með málstofu um jafnrétti í kennslustofunni þar sem umræðuefnið var m.a. hatursorðræða.
Menntaskólinn að Laugarvatni

Nei

Ekki hefur verið boðið upp á formlega fræðslu um málefnið.
Menntaskólinn á Akureyri

              Nei

Ekki hefur verið boðið upp á formlega fræðslu um málefnið.
Menntaskólinn á Egilsstöðum

              Já

Vorið 2023 fóru allir nemendur á Góðan daginn, faggi og í vor kom Achola Otieno frá Inclusive Iceland með fyrirlestur fyrir starfsfólk.
Menntaskólinn á Ísafirði

Já, við höfum boðið upp á fjölbreytta fræðslu um þessi mál.
Menntaskólinn á Tröllaskaga     Já               

Árið 2016: Rauði krossinn, Vertu næs, Aleksandra Chilipala og Juan Camilo.
Árið 2018: Ólína Eysteinsdóttir, SAFT, um netnotkun, einelti, fordóma, hatursorðræðu og neikvæð samskipti.
Árið 2022: Þátttaka þriggja kennara í Active Citizenship sem er norrænt verkefni um m.a. hatursorðræðu og kynþáttafordóma. Áfangi búinn til í kynjafræði á 2. og 3. þrepi. Fræðsla til starfsfólks. UNESCO, mannréttindi útfært í listum.
Árið 2023: Laura Arikka, Timeout Foundation í Finnlandi, samræðuaðferð. Námskeið í skólanum. Miriam Petra Ómarsdóttir Awad um fordóma í íslensku samfélagi. Góðan daginn, faggi, Bjarni Snæbjörnsson. Erasmus+ samstarfsverkefni, m.a. um hatursorðræðu.
Árið 2024: UNESCO, Alþjóðlegi menntadagurinn sem helgaður var baráttunni gegn hatursorðræðu.
Árin 2016–2024: Samræða á fagfundum kennara, jafningjafræðsla. Fræðsla sett inn í marga námsáfanga, sérstaklega í listum og félagsvísindum.
Menntaskólinn í Kópavogi               Nei Ekki hefur verið boðið upp á formlega fræðslu um málefnið.
Menntaskólinn í Reykjavík Í apríl 2024 er fyrirhugað að fá erindi frá Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur um stafrænt ofbeldi, þar á meðal um hatursorðræðu í þeirri mynd.
Menntaskólinn við Hamrahlíð     

         

Fræðsla frá Antirasistunum um kynþáttafordóma og hatursorðræðu. Fræðslan var á starfsmannafundi og einnig á þemadögum fyrir nemendur skólans. Regluleg fræðsla sem tengist fordómum sem utanaðkomandi fyrirlesarar sjá um jafnt fyrir starfsfólk og nemendur. Ýmsir fyrirlesarar hafa komið á síðustu árum, t.d. Stígamót, kynjafræðingar, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, starfsfólk ríkislögreglustjóra o.fl.
Menntaskólinn við Sund                     Mestur hluti fræðslu á þessu málefnasviði snýr að nemendum en einnig hefur verið boðið upp á eftirfarandi fræðslu fyrir starfsfólk undanfarin ár: Kynning frá Gunnvöru Rósu Eyvindardóttur, kennara í MS, á kennarafundi 2023 um kynjafræðikennslu í skólanum. Hópferð fyrir allan skólann á Góðan daginn, faggi í mars 2023. Kynning frá kennara skólans á menntabúðum 2022 fyrir allt starfsfólk um fornöfn nýheiti og trans.
Verkmenntaskóli Austurlands                          Lögreglan var með fræðsluerindi og leiðsögn fyrir starfsfólk í lok nóvember 2023 varðandi hatursorðræðu og ofbeldi gagnvart fólki af erlendum uppruna og hinsegin fólki og um kvenfyrirlitningu. Lögreglan hélt fræðsluerindi 13. mars 2024 fyrir alla dagskólanemendur þar sem m.a. var fjallað um hatursorðræðu og fordóma. Ákveðið hefur verið að halda námskeið fyrir starfsfólk í ágúst 2024 þar sem fjallað verður um hatursorðræðu, hatursglæpi og fordóma.
Verkmenntaskólinn á Akureyri     

              

Á starfsmannafundi í febrúar 2024 var fræðsla frá nemanda skólans um fornöfn og hvernig þau eru notuð á fjölbreyttan hátt eftir því hvernig fólk skilgreinir sig út frá kyni. Á sama fundi var fræðsla frá kennara innan skólans sem hefur kynnt sér hvernig ýmis merki (myndir eða tákn) eru notuð í umræðunni um kynþáttahatur og eiga að lýsa yfirburðum hvíta mannsins. Þá hefur verið fræðsla frá Jafnréttisstofu, Kávitinn. Á starfsmannafundum í upphafi haustannar 2022 og 2023 fjallaði skólameistari um mikilvægi þess að takast á við hatursorðræðu í kennslustundum. Mikil umræða er á meðal starfsfólks um þessi mál og ber þau reglulega á góma í kringum fyrirlestra sem haldnir hafa verið í skólanum um málefni nemenda af erlendum menningar- og tungumálauppruna. Ekki hefur verið sérstök fræðsla um hatursorðræðu eina og sér en hún fléttast inn í aðra fræðslu.